Farið að kólna og glitta í smá snjó!

Lag dagsins:

 

Góðan dagiiinn :)

 

Lífið er gott í Boston núna :) Það er farið að kólna hressilega og fyrstu snjókornin létu víst sjá sig í morgun, ég var þó sofandi og missti af því. Einhvernveginn hef ég þó á tilfinningunni að það sé ekki langt í næstu snjókommu. Þetta er agalega óvenjulegt fyrir Íslendingin mig að það komi enn einn og einn dagur þar sem maður getur farið út á peysunni, nóvember er hálfnáður hérna, bring it!

Röddin er búin að vera góð undanfarina daga sem ég er afskaplega þakklát fyrir, það er ekkert sjálfsagt að vera í góðu standi því það er svo margt sem getur komið í veg fyrir það. Rosalega breytilegt veður, sífelld flensa að ganga, þurrt loft á heimavistinni og það sem er eiginlega verst er að maður getur svo takmarkað æft sig því maður þarf eiginlega sífellt að vera að passa og ,,spara" röddina. Þetta getur verið rosalega erfitt stundum því mann langar jú helst bara að æfa sig allan daginn, ég er reyndar heppin að spila líka á píanó og gítar og get því yfirleitt haft eitthvað til að æfa. Reyndar fór ég að finna fyrir smá verk í úlnliðnum um daginn en það er ofboðslega algengt hérna sérstaklega hjá þeim sem spila á píanó sem aðalhljóðfæri. Allar þessar breytingar eru jú miklar, ég er ekki vön að sitja við píanóið 3 tíma á dag og spila en það er bara svo gaman að ég læt þennan verk algjörlega sem vind um eyru þjóta.. :) 

Ég er svo heppin með söngkennara hérna, hún er algjört æði! Hún er klárlega tough love týpan og notar margar mjög skrítnar kennsluaðferðir eins og t.d. að láta mig syngja á fjórum fótum! En við náum rosalega vel saman og hún er snillingur í að fá mig til að gera hluti sem mér hefði aldrei dottið í hug að ég gæti gert. Um daginn t.d. var ég að syngja lag sem fór upp á hátt G, fyrir mér er það mjög hátt þar sem ég hef aldrei sungið klassískt. Hún lét mig svo fá annað lag sem var skrifað í einni tóntegund en sungið í annari svo ég vissi í rauninni ekki nákvæmlega hvaða nótur ég var að syngja. Í því lagi fór ég upp á hátt A án þess að blikka. Þar með var hún búin að ,,plata" mig til að syngja hærra en ég hélt að ég gæti. Fyndið hvað hausinn á okkur getur oft verið takmarkandi fyrir okkur.
Hún sagði m.a. við mig um daginn: ,,it's like I gave birth to you my self!". Hún er æði :)

Seinasta helgi var löng vegna Veterans Day sem var í gær. Sá dagur er haldinn til að minnast þeirra sem börðust í stríði fyrir Bandaríkin ef ég man rétt. Fyrir flestum er þetta bara afsökun til að sofa út á mánudegi haha. Ég nýtti tímann svosem ekkert sérstaklega vel, jú kláraði smá heimavinnu og svaf svo bara aldeilis heilan helling! Svosem ágætt að sofa nóg, stór hluti af því að vera hress og með röddina í lagi.

Ég er eiginlega hissa á því hvað ég sé lítið af jóladóti núna þegar nóvember er hálfnaður. Kannski er Boston bara þannig borg en ég hafði einhvernveginn alltaf séð það fyrir mér að jólin kæmu í september hérna úti. En núna þar sem að Hrekkjavakan er búin og Þakkargjarðarhátíðin nálgast þá má maður nú örugglega fara að búast við einhverju skrauti hér og þar. Mig vantar bara smá snjó og þá er ég rosa glöð. 

 

Mig vantaði svo aðeins að skrifa svona almennt blogg, í rauninni var þessi vika bara ofboðslega venjuleg og ekkert (sem ég man akkúrat núna allavega) nýtt þannig sem gerðist. En eins og ég sagði seinast þá er margt mjög skemmtilegt framundan svo næstu blogg verða vonandi viðburðameiri :D

 

♥♥♥ 


Miðannapróf, Hrekkjavaka og margt fleira :)

Lag dagsins:

 

 

Það er búið að vera mikið um að vera hérna seinstu dagana svo ég hef ekki gefið mér mikinn tíma í að blogga en nú er bara einfaldlega komið að því að deila þessu öllusaman með ykkur!

Það sem er meðal annars búið að ganga á er fínnifatapartý þar sem stelpurnar klæddu sig í fínustu kjólana og strákarnir í jakkafötin. Partýið var hrikalega skemmtilegt, í þriggja hæða húsi þar sem efsta hæðin var einfaldlega þakið og þar voru allir og dönsuðu.

1383873_10202245801850467_481505197_n

Daginn eftir það fórum við í Toga partý sem var algjörlega misheppnað, aaaallt of margir í svona lítilli íbúð, rosalega heitt og sveitt svo við stoppuðum ekki mikið lengur en tvær mínútur. Sunnudaginn eftir það vorum við Jessie vaktar við símhringingu frá vini okkar þar sem að hann var búin að elda morgunmat handa okkur öllum. Egg og beikon, súkkulaðibita pönnukökur og kartöflubitar, ljúffengt. Við stoppuðum ekki lengi þar sem við áttum mikla heimavinnu eftir en um kvöldið fórum við í CVS, keyptum ís og buðum nokkrum vel völdum upp á herbergi fyrir smá sunnudagsís. 

Ég geri alltaf sömu mistök og fer allt of seint að sofa á sunnudögum. Mánudagsmorguninn var einn sá þreyttasti sem ég hef upplifað en þar sem ég átti tíma kl 11 á þriðjudeginum þá náði ég nægum svefni og gat rétt mig soldið af. Ég fór og sótti ,,job offer" blað í þessari viku sem býður mér uppá vinnu við að aðstoða við inntökupróf og viðtök nýnema skólans. Ég fór líka að sækja um kennitölu sem ætti að vera að detta í gegn innan skamms.

Síðan þá hefur ekki verið neitt mikið að gerast sem vert er að segja frá. Jú, miðannaprófin voru í seinustu viku. Ég skil ekki alveg afhverju fólk er að blása þessi próf svona upp, þessi vika var bara hrikalega næs! Þegar maður var búinn að taka prófin þá þurfti maður ekki að  mæta í restina af tímunum svo ég hafði nægan tíma á daginn til að læra fyrir það næsta. Vissulega hentar þetta fyrirkomulag ekki öllum en fólk eins og ég sem er duglegt að skipuleggja tímann elskar svona daga. Ég fékk að meðaltali 9,6 í tónheyrn og 9,6 í tónfræðinni líka, 9,5 í ensku og á eftir að fá útúr music tech verkefninu mínur, jeij ég!

IMAG1747

 Seinasta helgi var rosaleg!! Hún byrjaði strax á miðvikudeginum þegar Red Sox unnu World Series! Fagnaðarlætin voru alveg svakaleg, fólk hljóp um allar götur, öskrandi og fagnandi. Allir klæddir í rautt með andlitsmálningu, með fána og fleira dót. En eins og oft vill gerast þá fóru fagnaðarlætin aðeins úr böndunum. Fólk fór að velta bílum og brjóta rúður og hlupu svo eins og eldurinn undan lögreglunni. Við vorum sem betur fer farin þegar þetta átti sér stað. Öryggisbúnaður var í algjöru hámarki, allar löggur á vakt og hvert sem maður sneri sér þá voru þau að fylgjast með. Meira að sejga sérsveitin var þarna! 

Ekki skemmdi það svo fyrir að sjá tourbussinn hans Drake! Hann var samt með einhverja stjörnustæla og vildi ekki fara út með öllu crewinu sínu fyrir framan hótelið svo hann lét keyra rútuna bakvið og fór inn þar. Gaman engu að síður :P 

 

 

 

 

Tourbusinn hjá Drake!

 

 

 

 

 

Á fimmtudaginn var svo komið að elsku Hrekkjavökunni! Ég fór í fyrsta og eina tímann klukkan 9 og þar sem að við vorum úti frekar seint kvöldið áður þá fór ég beint heim og lagði mig. Ægilega kósý. Vaknaði sv óvart eftir 3 & 1/2 tíma en bara þeimur hressari fyrir vikið.. :P ég fékk mér ,,hádegismat" klukkan 3 uppá herbergi og fór svo í ræktina. Eftir það var komið að kvöldmat þar sem það var búið að skreyta matsalinn hátt og lágt.

Matsalurinn skreyttur

 

Það var búningakeppni, nammi útum allt og pumpkin matur alls staðar, ótrúlegt hvað þau fá þessi grasker á heilann kringum þennan tíma! Við klæddum okkur að sjálfsögðu upp um kvöldið (ég var Sandy úr Grease) og fórum á bar þar sem vinkona okkar var með gig. Alveg hrikalega gaman, dansað og dansað þar til við vorum orðin svo þreytt að við fórum heim.

 Það var bara einn klukkutíma tími hjá mér á föstudeginum svo ég fór í ræktina eftir hann og svo beint heim að gera mig til enda mátti ég engan tíma missa! Til að gera langa sögu stutta þá tók það mig 4 klukkutíma að ,,kríta" hárið rautt, krulla það og spenna krullurnar svo upp. Það varð basicly allt rautt inná baðherbergi svo ég þreyf það, fékk mér sushi og smellti á mig make uppinu. Jason kom svo upp og við fórum yfir á Clearway. Þar tókum við nokkrar hópmyndir og röltum svo yfir í fyrirpartý áður en við fórum svo í alvöru partýið.

IMAG1766

 

Þar var allt pakkað af fólki og ég var ekki alveg að nenna því svo ég fór til baka uppá herbergi hjá mér og hjálpaði Jessie að gera sig klára því hún hafði verið á söngleikjaæfingu. Þegar hún var svo klár þá röltum við yfir (partýið var á sömu götu og við búum á). Það var ennþá alveg jafn mikið af fólki en ég var í mikið betra skapi svo það truflaði mig ekki lengur. Það voru allir í búningum og sumir sem höfðu lagt alveg hrikalega mikið í sína, elska metnaðinn í þessu fólki!

1455893_648160205224896_1934201053_n

 

 Ég tók því ofboðslega rólega á laugardeginum þar sem ég var eiginlega hálf lasin. Mikið hvað mig vantaði nú mömmu sín þá! En krúttlegu vinir mínir sáu um mig og héldu mér félagsskap.  Ég svaf meira og minna allan daginn þegar fólk var ekki hjá mér, lá svo bara uppí rúmmi og horfði á Friends.

Sunudagurinn fór eiginlega í það sama bara :P

 

Það er margt skemmtilegt framundan núna! Ég er byrjuð að undirbúa mig fyrir lokaprófin í söngnum, búin að velja 2 lög af þremur svo ég geti nú verið alveg 100% tilbúin. Björgvin er að koma í heimsókn eftir rétt rúmar 2 vikur, foreldrar Jessie líka, frumsýning á Footloose sem hún er með aðalhlutverkið í og svo margt fleira! En ég skal alveg viðurkenna það að ég er komin með svolitla heimþrá og er eiginlega farin að telja niður hvað það eru margir dagar þangað til ég kem heim, get ekki beðið :)

 

Until next... xx 


Long time no blog... :)

Lag dagsins:

 

Langt síðan síðast, ég veit, ég veit. Það var kom algjörlega í bakið á mér að væla um að það væri lítið að gera í seinasta bloggi því allir dagar síðan þá hafa verið algjörlega pakkaðir! Ég ætla ekkert að fara mikið útí það sem gerðist í seinustu viku, allir dagarnir voru pretty much skóli, læra, ræktin og sofa.

 Á fimmtudaginn fyrir viku hinsvegar komu mínir yndislegu foreldrar loksins í heimsókn!! :) Ég var búin að hlakka til svooo lengi! Ég kláraði alla heimavinnu fyrirfram svo ég gat notað allan fimmtudaginn til að taka til í herberginu svo allt yrði nú fínt fyrir gömlu. Ég tók lestina kl 18 upp á flugvöll, þurfti að taka tvær lestar og eina rútu. Að sjálfsögðu viltist ég á leiðinni en fyrir einskæra heppni og nokkra hjálpsama einstaklinga komst ég á leiðarenda. Fluginu hjá Icelandair seinkaði lítillega svo ég þurfti að bíða í svolitla stund en þau voru komin út áður en ég vissi af. Þvílíkir fagnaðarfundir!! Eftir ótal knús og nokkur gleðitár settumst við uppí Taxa og fórum með töskurnar upp á herbergið þeirra. Þau gistu á Bed & Breakfast bara hérna rétt hjá skólanum, voða kósý staður. Eftir að þau voru búin að koma sér fyrir fórum við uppá herbergi til mín til að kynna þau fyrir Jessie. Hungrið var farið að segja til sín svo ég sýndi þeim CVS og Whole Foods hérna í nágrenninu.

Mamma með vöffluna sína

Á föstudaginn vaknaði ég snemma aldrei þessu vant og bauð gömlu upp á morgunmat í matsalnum. Það er eins og ég hef skrifað um áður úr nægu að velja en belgíska vöfflujárnið held ég að hafi staðið uppúr. Nutella, smjör & sýróp og hnetusmjör & sulta. 

Þetta fannst okkur ekki leiðinlegt! Gömlu fóru og kíktu svo í búðir á meðan ég kláraði smávegis heimalærdóm og fór í tíma. Jessie kom svo og hitti mig upp í skóla og við fórum öll fjögur á Pret A Manger eftir tíma hjá mér, staðurinn okkar mömmu! Svoo gott :) Södd og sæl röltum við yfir í The Prudential Center sem er mollið hérna í nágrenninu. Það var svosem ekki mikið að skoða þar enda mikið um svona heldri manna búðir.

Duck Tour bílabáturinn á leiðinni niður í ánna

Þaðan fórum við í Duck Tour sem var alveg hrikalega gaman :) Keyrt um alla borgina og farið út á Charles River líka, bara gaman að sjá meira af borginni! Að því loknu var að sjálfsögðu kíkt aðeins í búðir aftur og við enduðum svo daginn á hinum fínasta veitingastað þar sem ég og pabbi fengum einn stærsta borgara sem ég hef séð. Kláraði hann samt eins og mér einni var lagið... :P 

 

 

 

 

 Laugardagsins hlakkaði ég mjög til, þá átti sko að fara að versla! Ég var rekin á fætur rétt fyrir átta og komin út í bílinn sem við legðum rúmlega átta. Þá áttum við ca. 40 mínútna akstur fyrir okkur en ég svaf eiginlegla alla leiðina, safna kröftum sko! 

IMAG1628

Við byrjuðum á því að koma við á Dunkin Donuts og svo byrjaði brjálæðið! Það eru fááránlega margar búðir þarna en við byrjuðum öll saman í Under Armour outletinu. Eitt orð, VÁ. Svo ódýrt, svo litríkt, svo gaman!! Ég verslaði fullt af útsöluvörum en mátti ekki vera að því að staldra mikið lengur við því það var svo margt annað sem þurfti að skoða! Við ákváðum að hittast kl 1 fyrir utan Burberry's svo ég hafði rúma 3 tíma til að skoða allt sem mig lysti! Snilldin var að í Under Armour fengum við bakpoka undir fötin sem við keyptum í stað venjulegs innkaupapoka svo allt annað sem maður keypti smellpassaði þar! Agalega hentugt :D Eins og gefur að skilja fannst mér þetta oooofboðslega gaman, bara ein í friði að skoða eins lengi eða stutt og mér hentaði. Ég kom kl 1 með troðfullan poka fyrir utan Burberry's og hitti gömlu. Þar gerði ég stutta útreikninga og komst að því að ég átti töluvert mikið eftir af þeim pening sem ég hafði gert ráð fyrir að eyða GLEÐI! Það þýddi bara eitt, ég þyrfti að skoða búðirnar aðeins betur. Við pabbi fórum aftur í Under Armour og ég keypti mér hluti sem voru ekki á útsölu en ég meina, hita/hlaupa/snilldarpeys og mjög flottar hlaupabuxur á 13.000 kall? Það er náttúrulega bara djók :D

Mamma komin með körfuna og tilbúin í þetta!

Að öllu verslunarstússi loknu keyrðum við í næsta Target, fengum okkur pizzu og eyddum svo tæpum 2 tímum þar bara að skoða. Ég keypti ýmislegt sem vantaði í herbergið, baðherbergismottu og skógeymslu til dæmis. Pabbi fór út í bíl og lagði sig á meðan við mamma kláruðum að skoða. Fórum svo og keyptum okkur pastasalat og keyrðum heim. Eftir tískusýningu uppá herbergi hjá gömlu fór ég uppá mitt herbergi og sofnaði snemma.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sunnudagurinn fór meira og minna í að rölta Newbury street. Við vorum svosem ekkert að versla neitt brjálæðislega mikið en engu að síður gaman að rölta í góða veðrinu :) Fórum svo á sushi stað í hádeginu, rosalega góður matur!

IMAG1657 

Áfram hélt búðaröltið þar til við vorum eiginlega orðin of þreytt bara, þá fórum við í matsalinn og ég bauð þeim í kvöldmat, óvenju góður matur meira að segja! Aftur fór ég uppá herbergi hjá þeim þar sem við lágum bara í kósý að spjalla, ómetanlegar stundir verð ég að segja! Ég fór til baka á vistina og hringdi í Jessie á Skype. Hún fór til Kanada yfir kanadísku þakkargjarðarhátíðina og við söknuðum hvor annarar sorglega mikið hahah :) Ég fór með tölvuna niðrí kjallara þar sem nokkrir af vinum okkar voru að spila saman, Jessie var þarna með okkur í tölvunni allt kvöldið, frekar fyndið en mjög gaman. Nokkrir af þeim komu svo uppá herbergi fyrir smá tetíma eins og við tökum á næstumþví hverju kvöldi, orðin frekar skemmtileg hefði hjá okkur :)

 

Á mánudaginn var Columbus day svo ég þurfti ekki að mæta í skólann. Um morguninn komu mamma og pabbi með allar töskurnar upp á herbergi til mín því þau þurftu að tékka sig út fyrir kl 11. Við röltum svo í morgunmat þar sem það var að sjálfsögðu fengið sér vöfflu aftur! Þaðan fórum við á lestarstöðina og tókum lest lengra niðrí bæ.

IMAG1682 Byrjuðum á að labba Chinatown og fórum svo um almenningsgarðinn þar sem við settumst niður með McDonalds. Hef ekki fengið Macca síðan í London í febrúar svo það voru fagnaðarfundir.. :P við fórum svo bara aftur uppá herbergi hjá mér og tókum því rólega þar til leigubíllinn kom að sækja þau. Mikið ofboðslega rosalega leiðilega erfitt var nú að segja bless :( Mörg tár sem runnu niður kinnina þarna úti á miðri götu. Ég fór inn og bíllinn keyrði í burtu, ég hljóp upp stigann í þeirri von um að ég myndi ekki rekast á neinn með augun rauð og tárin á kinnunum haha. Sem betur fer á ég yndislega vini hérna sem komu uppá herbergi til mín og héldu mér félagsskap því hvorki Mari né Jessie voru heima. Restina af kvöldinu var ég svo í æfingaherbergjunum.

 

 

 

 

 

 

 

Þessi vika er líka búin að vera nokkuð pökkuð. Hún var hræðilega fljót að líða!! Ég er dugleg að mæta í ræktina og er farin að plana dagana mína vel enda veitir ekki af þar sem midterms eru í nánd!! Úff það verður nú eitthvað :) Í kvöld er "black tie theme" partý hérna neðar í götunni og mikil stemning fyrir því enda langt síðan við höfum öll eytt tíma saman almennilega!

IMAG1653 

Ég veerð að fara að æfa mig núna svo blogið verður ekki lengra að þessu sinni en mig langaði bara að þakka mömmu og pabba fyrir ÆÐISLEGA helgi. Það var yndislegt að hafa þau hérna, algjörlega ómetanlegar stundir og rosalega gaman að vera einkabarn í smá stund :):) Hlakka óendanlega til eftir næstum akkúrat tvo mánuði þegar ég fæ að sjá þau aftur ♥ 

IMAG1671 

 


Ennþá 20°C í október

Lag dagsins:

 

Funny fact (datt ekkert í hug svo ég neyddist til að googla...)

  • Over 3 million people globally every month search for something online with the words interesting facts in it according to the most popular search engine.
  • Many people who read the word yawn or yawning begin to feel the urge to yawn.

    (varð að henda þessu seinna með!)

 

Stundum hundleiðist mér á daginn... Ég hef aldrei á minni ævi bara þurft að mæta í skólann og ekkert annað, ég hef alltaf æft einhverja íþrótt með, mætt í tónlistarskólann, farið að þjálfa, mætt á Björgunarsveitafund, farið að vinna og svo framvegis og svo framvegis! Það að ég hafi svona mikinn frítíma fannst mér snilld í byrjun en það er bara ekkert gaman við þetta haha! Það er að vísu ágætis slatti af heimavinnu en samt er það í rauninni ekkert meira en var á seinustu önn hjá mér í FVA. Að vísu var ég í 9 áföngum en núna er ég miklu skipulagðari og metnaðurinn er svo miklu meiri að ég klára alltaf heimanámið strax.

Í fyrradag ákvað ég þó að gera eitthvað í þessum málum og skráði mig í ræktina, LOKSINS! Ég hef ekkert farið í ræktina síðan á Íslandi, bara farið út að hlaupa, svo vellíðanin í gær var óendanleg! Þetta er svona hæfilega stór rækt, sú elsta í Boston svo að allir veggir eru úr dökkum við og mjöög hátt til loftsins. Það er verið að byggja sundlaug á þessum stað sem er mjög jákvætt! Hlaupabrettin eru eiginlega það besta við þetta, þau eru með skjá þar sem þú getur fyrir það fyrsta fylgst með öllum framförum, vegalengd, kaloríubrennslu, hraða, meðalhraða lalala allt þetta stöff. Svo ef þér leiðist þá getur þú annað hvort tengt iPodinn/iPhoneinn við skjáinn og valið lögin þín þaðan eða einfaldlega horft á sjónvarpsþátt. Ég fór aftur í ræktina í dag og horfði á einn American Dad þátt. Maður gleymir sér alveg og hleypur þar af leiðandi lengur áður en maður fattar að þreytan sé að segja til sín. Snilld. 

 

Sunnudagurinn var annars mjög fínn. Það vöknuðu allir frekar þunnir svo ég var ægilega sátt með þá ákvörðun að hafa ekki verið í glasi kvöldið áður. Ég held að líkaminn sé kominn með soldið nóg af því, hann er farinn að stoppa mig af. Sunnudagsbrunchinn klikkaði ekki frekar en vanalega og við fórum svo öll heim að læra. Flestir höfðu frekar mikið að læra svo við kláruðum það öll áður en við fórum í mat. Eftir matinn komum við við í Tedeschi til að kaupa eitthvað kvöldsnarl fyrir movie kvöldið okkar. Við kipptum Ben & Jerry's og Hot Tamales með okkur og fórum niður í TV herbergið í kjallaranum. Við ætluðum upprunalega að horfa á The Conjuring en þar sem að season finale af Breaking Bad var á dagskrá var að sjálfsögðu ekki hægt að horfa á neitt annað! Ég er bara komin á seríu 3 en þar sem að örugglega 98% nemenda skólans horfa á þessa þætti ákvað ég að skemma soldið fyrir mér og horfa bara beint á lokaþáttinn! Hann olli svo sannarlega ekki vonbrigðum. Vinur minn fyllti inn í eyðurnar fyrir mig, útskýrði sumt og sagði frá nýjum karakterum í þáttunum. Það var almennt mjög mikil ánægja með þáttinn og ég bara hrósa aðstandendum þáttanna fyrir góð endalok!

 

Það er alveg víst að mánudagsmorgnar eru þeir erfiðustu! Því miður vill oft verða svolítið erfitt að halda augunum opnum í tveggja tíma tónfræðinni klukkan 9 en fyrst við fáum 10 mínútna pásu þá gerist það bærilegra :) Röddin mín var í rúst þegar ég vaknaði þennan dag sem er ekki aaalveg það sem ég hef þolinmæði fyrir akkúrat núna. Hálsinn var fullur af einhverju ógeði og stundum kom varla hljóð þegar ég reyndi að tala. Ég fékk klukkutíma pásu 11-12 svo ég og Harrison (sá sami og útskýrði Breaking Bad fyrir mér) fórum í hádegismat þar sem ég sötraði heitt hunangs te eins og ég fengi borgað fyrir það. Við tókum bara stuttan hádegismat því næst á dagskrá var tónheyrnarpróf. Fólk var parað saman fyrir prófið en Harrison er með mér í þeim tímum og við fengum að vera tvö og tvö. Prófið samanstóð af áður séðum sem og óséðum nótnalestri (syngja nótur af blaði) og svo fleira sem ég ætla ekkert að fara nánar út í en það var s.s. mjög mikilvægt að röddin væri ekki að trufla mig. Með möörgum ræskingum (raddkennarinn minn skammaði mig fyrir það btw.. haha) tókst mér að hreinsa hálsinn og koma mér í gírinn. Prófið gekk nokkuð vel hjá okkur, smá ruglingur með do,re,mi en við erum bæði að vinna með það í fyrsta skipti ævi okkar svo það er svo sem ekkert skrítið. Ég kláraði tónfræði heimavinnuna og fór svo með Jessie og Taylor til að skrá okkur í ræktaráskrift. Það var tekið vel á móti okkur og okkur sýnt öll fríðindi sem fylgja því að vera meðlimur. Stelpurnar fóru aftur til baka í tíma en ég varð eftir og tók, eins og áður sagði, fyrsta almennilega ræktartímann minn. Yndislegt! Ég skokkaði til baka, fór í sturtu og beint í kvöldmat. Söngtíminn minn var kl 19 en kennarinn minn sá það strax á mér að ég var engan veginn í nógu góðu standi til að syngja. Hún hálfpartinn rak mig heim aftur og gaf mér annan tíma daginn eftir. Ég var mjög þakklát fyrir það :) Ótrúlega fyndið hvað hún er farin að þekkja mig og kunna á mig eftir svona stuttan tíma! Algjör snillingur þessi kona!! Ég fékk þau fyrirmæli að fara heim, setja á mig trefil, sjóða mér te og stein þegja :P Sem og ég gerði. Á leiðinni heim kom ég reyndar við í CVS og keypti allt sem ég vona að muni hjálpa mér að halda kvefinu í burtu. Hálsbrjóstsykrar, C-vítamín, Gypsy Cold Care te og hvaðeina. Eitthvað hefur þetta haft að segja því nú líður mér mun betur :)

 

Ég var mjög glöð þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn að finna hvað röddin var mikið skárri. Ég þarf einfaldlega að vera mjög varkár. Það þýðir fyrir það fyrsta ekki að fara út hvert kvöld sama hvort það sé yfir á næstu hæð eða í partý. Ég þarf að taka róleg kvöld heima líka. Einnig þýðir ekkert fyrir mig að fara dag eftir dag í æfingaherbergin og gaula þar fram í rauðann dauðann. Þótt það sé eiginlega það skemmtilegasta sem ég geri þá bara þolir hálsinn ekki svona mikið álag alla daga. Passa upp á sig númer 1, 2 og 3 :) Við Maddy fórum í Music Technology tíma þar sem var verið að kenna okkur á GarageBand í tvo tíma, vúúppíí... Við vorum báðar bara á online shopping síðum allan tímann :P

Seinna um daginn var komið að samspilinu mínu. Ég kveið því aðeins því röddin var enn ekki komin í nægilega gott stand. Það eru nokkur erfið lög í spilun hjá okkur þ.á.m. Love on Top með Beyoncé. Ég bað um að fá að sleppa því í þetta skiptið og það var ekkert mál. Eftir tæpan klukkutíma var röddin komin í betra stand og ég var farin að geta sungið almennilega :) Við tókum m.a. reggae útgáfu af Try eftir Pink, djöfull hljómaði það vel afsakið orðbragðið :) Ég fór í mat og svo í söngtímann minn sem við færðum. Hann gekk líka vel og ég fór mjög hamingjusöm að sofa Smile

 

Í gær svaf ég til 10:30 og fannst meira að segja erfitt að vakna þá, er það nú... Það var heitt úti þegar ég labbaði í tónfræði, mjög góð tilfinning. Þar sem að við Harrison tókum okkar próf á mánudaginn þurftum við ekki að mæta í gær, mjög nice! Ég nýtti þennan auka tíma í að læra aðeins, horfði á einn Orange is the New Black og fór svo aftur í ræktina. Ég tók efrilíkama æfingu og labbaði hálf skjálfhent út, langt síðan hendurnar hafa fengið að finna fyrir því :P Jessie beið eftir mér þegar ég kom til baka með verkefni sem hana vantaði hjálp með, við kláruðum það, hún fór í tíma og ég kláraði Music tech verkefnið mitt. Eins og alla miðvikudaga tók ég snemmbúinn kvöldmat og fór svo í þriggja tíma enskugleðina kl 18. Þegar ég kom heim voru flestir af okkar fólki í herberginu okkar svo við ákvaðum að fara niður í æfingaherbergin og jamma soldið! Hrikalega gaman, meirað segja nokkrir aðrir sem búa hérna komu og spiluðu með okkur. það er ekkert pláss í þessum herbergjum svo við opnuðum bara fram á gang og spiluðum öll saman :)

 

Þar til næst Heart 


Commit today, contribute tomorrow

Lag dagsins:

 

 

Fun fact

Í Berklee eru nemendur frá 91 landi, flestir innflytjendurnir eru frá Kóreu 

Það er 1 kennari á hverja 8 nemendur

 

Jææja mitt fallega fólk! Fyrir það fyrsta, takk fyrir að lesa bloggið! Svo gaman þegar fólk nennir að fylgjast með mér og öllu því sem er í gangi hérna í Ameríkunni :)

 

Ég fór á miðvikudaginn og lét skrifa undir I-20 formið mitt (hluti af VISA vegabréfs veseninu) svo að ég megi nú fara úr landi um jólin. Ég hafði ekki hugmynd um að ég þyrfti að gera þetta en sem betur fer er Jessie frá Kanada svo hún minnti mig á þetta og við fórum saman. Dagurinn var bara frekar rólegur, ég fór heim eftir undirritunina og kláraði heimavinnu í tónfræði, úff allt of mikið sett fyrir en þegar ég loksins gat sest niður og einbeitt mér þá var ég svosem ekkert svo lengi með þetta. Þriggja tíma enskutíminn minn var svo næst á dagskrá kl 6. Ég hljóp þaðan yfir í prufur fyrir a capella hópinn í skólanum. Það byrjaði kl 20 svo að þegar ég kom loksins kl 21:10 þá voru mjög margir á undan mér. Ég var númer 35 í röðinni og beið til 23:15 en þá fór ég inn. Eins og gerist oft seint á kvöldin þá var röddin mín alveg komin í rugl, hálf ,,sofnuð" eiginlega. Þar af leiðandi var prufan ekki jafn góð og ég hafði vonast eftir, gekk alls ekki illa en ekki jafn vel og ég vildi heldur.  En ég var alls ekkert að svekkja mig á því, ég er bara á fyrstu önninni minni og bara um að gera að safna sem mestri reynslu! 

Fimmtudagurinn byrjaði á 9:00 tíma sem er alltaf jafn erfitt þegar allir hinir eru kl 11... :P Það var hinsvegar ekki venjulegur tími heldur var Patrice Rushen komin til að tala við okkur. Ég hafði aldrei heyrt um hana áður og var því ekki jafn star struck og margir vinir mínir en frásögn hennar var alveg ótrúleg! Það sem hún hefur ekki gert! Ég tengdi link við nafnið hennar á wiki síðu um hana og ég mæli sterklega með því að fólk lesi sér til um hana. Ótrúleg manneskja! Fyrirlestur hennar var rosalega hvetjandi fyrir okkur nýnemana og það gengu allir út alveg peppaðir í drasl haha!

Lokaorðin hennar voru:

Commit today, contribute tomorrow 

Mann langaði bara að segja amen og preach og allt þetta haha!

Við skeltum okkur súperpeppuð í hádegismat og svo fór restin af deginum eiginlega bara í heimanám. Klukkan 5 tókum við leigubíl yfir brúnna til að fara á tónleika vinar okkar. Þeir voru með útitónleika á vegum Berklee sem eru alltaf vikulega á sama staðnum. Við fengum okkur Starbucks og hlustuðum í rúman klukkutíma, ekkert smá kósý :) Tókum svo leigubíl heim aftur og beint í afmælispartý eins bekkjarfélaga okkar. 

 

Á föstudaginn fór ég í fyrsta tónheyrnarprófið mitt. Úff... Kennarinn spilaði allt svo hratt og bara allt í gegn, varla neinar pásur á milli til að hugsa svo ég skildi eina og eina nótu eftir því ég bjóst við því að hann myndi spila allt yfir einu sinni enn, neinei hann var ekkert að því, hrifsaði bara af okkur blöðin svo ég og vinur minn horfðum bara á hvort annað með þessum æi sjitt svip haha! Ég var komin í helgarfrí kl 1 svo ég og Jessie kítkum aðeins niður í bæ bara upp á djókið. Hún keypti sér 2 boli, 1 peysu og 1 klút en ég lét það alveg vera enda fatasending á leiðinni til mín frá Forever 21 :D:D 

Um kvöldið buðum við svo nokkrum yfir í íbúðina hjá stelpunum, spiluðum Beer Pong og tónlist fram eftir kvöldi, mjög gaman :)

Ég lá svo nánast allan laugardaginn uppí rúmmi, ein heima, með snakk og ídýfu, Breaking Bad og letin í hámarki, svo nice! fór í kvöldmat um 6 leytið og svo heim til stelpnanna þar sem við fórum síðan í aðra íbúð hérna rétt hjá. Lögðum af stað heim rétt fyrir 2 til að ná Cappy's áður en þeir loka kl 2... :))

 

Í kvöld ætlum við svo að hafa movie night þar sem það á að horfa á The Conjuring! Mikið ofboðslega hlakka ég til að verða ógeðslega hrædd haha! 

 

Until next... xx 


Þessum kennurum finnst mjög gaman að setja fyrir heimavinnu!

Lag dagsins:

 Fun fact:

*Hér rembast allir strákar við að verða næsti John Mayer en þeir virðast gleyma því að PSY gekk líka í þennan skóla svo kannski það sé eitthvað til að eltast frekar við!

 

Ókei svo ég er að fá kvartanir um bloggleysi sem eiga reyndar alveg rétt á sér. Kennurunum hér finnst ægilega gaman að demba á mann alveg helvítis hellings heimavinnu á hverjum degi en ætli maður læri ekki betur þannig :) 

Eins og ég segi þá er búið að vera mjög mikið að gera hjá mér þessa dagana. Ég bókaði loksins flugmiðann minn heim um jólin en það verður 19. des. Seinasti skóladagurinn hjá okkur er reyndar 20. des en flugmiðinn þann daginn kostar ekki nema 84.000 svo ég er búin að fá leyfi hjá öllum kennurunum mínum til að fá að sleppa seinasta deginum og fljúga þá 19. des í staðinn. Sparaði mér þar rúmlega 30.000 krónur! 

Ég hef svosem ekki mikið að segja frá hinu daglega lífi. Tímarnir eru flest allir skemmtilegir en allir mjög áhugaverðir. Ég var soldið að ströggla með tónheyrnina í byrjun afþví hérna er mjög mikið lagt uppúr svokölluðu ,,solfege" sem er þá do re mi fa so la ti do. Ég hef sjaldan notað það svo það tók mig smá tíma að sætta mig við það. Nún hinsvegar, eftir nokkra klukkutíma af æfingum, er ég nokkurnveginn búin að ná tökum á þessu dæmi og þá er lífið svo miklu auðveldara hérna! Tónheyrnar tímarnir eru margfalt auðveldari og skapið þar af leiðandi léttara :P Tónfræðin er ennþá soldið erfið en samt alls ekkert óviðráðanlegt. Ég þarf bara að finna tímann og þolinmæðina til að setjast niður við píanóið og læra öll tónbilin (þrí, fer og fimmundir til að byrja með) utan af. 

Mánu- og þriðjudagar eru eiginlega mínir uppáhalds hvað skólann varðar, þá er einkatíminn og samspilið mitt. Miðviðkudagar eru allt í lagi en þriggja klukkutíma enska á kvöldin er kannski full mikið af því góða. Þrátt fyrir að við fáum góða 30 min pásu til að fara á Starbucks eða eitthvað þá er þetta samt langur tími sem maður þarf að halda einbeitingu svona seint á daginn. Við byrjum alla tíma á því að gera eina ritæfingu. Um það bil 85% bekkjarins hafa ensku sem sitt móðurmál sem gerir það að verkum að  þeirra sögur, ljóð eða ritanir verða mjög flottar og vel skrifaðar. Við eigum síðan að bjóðast til að lesa okkar verkefni upp og ef enginn gerir það þá velur kennarinn einhvern til þess. Ég hef alltaf verið góð í ensku en mig bara langar ekkert að lesa minn byrjendastigs texta eftir að þessir snillingar eru búnir að lesa upp sín tilfinningaþrungnu ljóð eða æpandi góðar sögur. Andrúmsloftið í þessum tímum er þó mjög gott, það er enginn að fara að dæma þig ef þú kemur með eitthvað lélegt, engu að síður þá langar mann að komast á þetta sama stig og hinir. Bannað að bera sig saman við hina, ég veit, ég veit :) Séérstaklega í svona skóla þar sem án djóks ALLIR eru brjálæðislega hæfileikaríkir.

Ég ætla að fara í prufur á morgun fyrir Pitch Slapped a capella hópinn í skólanum. Þau eru bara með 4 laus pláss, 2 fyrir hvort kynið og þar sem að það ganga 4500 manns í skólann og söngdeildin er þar lang stærst þá á maður ekki mikla möguleika.

Pitch+Slapped+pitchslapped 

Ég var soldið efins um þetta og var mikið að hugsa um hvað allir hinir ætla að syngja og hvernig ég myndi koma út miðað við þau. Svo fór ég í söngtímann minn í gær og kennarinn minn talaði mig algjörlega inn á aðra braut! Auðvitað á ég ekkert að vera að pæla í öllum hinum! Ég er hérna afþví ég er góð í því sem ég geri, ég er hérna afþví ég skar mig út frá öllum þeim 7 eða 8000 sem sóttum um, ég er hérna afþví ég hef brennandi áhuga á því sem ég geri. Ég ætla að labba inn í þessar prufur með allt þetta í huganum og ég ætla ekki einusinni að pæla  í hinum sem eru þarna líka. Ég er mjög spennt að sjá hvernig þetta fer og vonandi fæ ég allavega call backs :) Fingers crossed.

Það er aðeins farið að kólna úti, morgnarnir eru frekar kaldir, ca 10°C. Ég veit að heima er það mjög hlýtt þannig séð en hérna er loftið svo rakt að allur hiti eða kuldi margfaldast. Við sem erum í söngdeildinni þurfum að fara extra varlega útaf röddinni. Ekki fara út þegar það er kallt án trefils og passa að spritta hendurnar ef maður ungengst fólk með mikið kvef eða hósta. Maður komst inn á röddinni svo maður þarf að halda henni góðri! Ég tók að sjálfsögðu með mér lýsi og tek það á hverjum morgni.

Ég pantaði mér föt frá Forever 21 í gær, bara afþví það er svooo gaman að fá föt send. Þetta var nú bara einn bolur og eina peysa og kostaði saman 23 dollara sem eru ca 2800 kr. guuuð hvað ég elska hvað allt er ódýrt hérna! Um daginn keypti ég mér t.d. lítið 2ja áttunda MIDI hljómborð til að nota við heimavinnu á $100 sem er 12.000 kr. Þetta fengi maður aldrei undir 20.000 heima! 

Verið að klára heimavinnuna 

Föstudagur 

Ég fór í tónfærði- og heyrn um morguninn og var svo búin kl 1. Við fórum öll saman í hádegismat og hengum þar í næstum 2 tíma enda allir búnir fyrir daginn og lítið annað að gera. Ég og einn vinur minn fórum í litla rækt sem er hérna rétt hjá fyrir Berklee nemendur. Hún er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir en það er frítt að fara þangað svo ég ætla ekkert að kvarta. Ég hef verið ágætlega dugleg að fara út að hlaupa þessar vikur sem ég hef verið hérna en aldrei farið í ræktina svo það voru ágætis harðsperrur þarna daginn eftir! Við tókum stutta lögn uppáherbergi í rúman klukkutíma og vorum svo bara í rólegheitum fram að kvöldmat. Jessie og ég fórum svo uppáherbergi aftur og Taylor, stelpa sem býr líka á campus kom með okkur. Taylor fór að krulla hárið á Jessie sem endaði í því að taka aaðeins og mikinn tíma svo að eins og vanalega vorum við ekki komin út fyrr en allt of seint. Við fórum í íbúðina hjá stelpunum og byrjuðum á Beer Pong þegar klukkan var að verða 11. Við vissum alveg að það var orðið allt of seint að fara út til að finna einhver partý svo að vinur vinar okkar bauð okkur að koma í íbúðina hjá sér sem við þáðum með þökkum :P Við vorum þar í ca 2 tíma, allir heimsins drykkjuleikir prófaðir og mjög gaman. Við fluttum okkur svo öll yfir í aðra íbúð rétt hjá og vorum þar til ca 4 en þá nennti ég ekki meir og við stelpurnar fórum heim.

Á laugardaginn vöknuðum við um hádegi og fórum öll saman í hádegismat. Það er svo kósý hvernig við náum eiginlega alltaf að hittast öll í mat, sitjum yfirleitt á sama stað í matsalnum, á efri hæðinni svo maður getur alltaf séð hvort einhver af okkur sé kominn þegar maður labbar inn :) Upprunalega planið var að fara á hafnaboltaleik á laugardeginum. Nemendur í Berklee geta fengið miða á $10 en við föttuðum ekki að fara á föstudeginum (héldum að það væri líka selt á laugardögum) svo það var víst orðið of seint að redda því. Við ætlum samt klárlega að fara seinna! Þess í stað fórum við og keyptum nammig og horfðum á mynd í íbúðinni. Annar strákanna á hæðinni fyrir neðan okkur fékk svo sms um partý um kvöldið. Vinur hans á bróðir í bræðrafélagi eins háskóla hérna og hann mátti bjóða fólki með sér, eða stelpum réttara sagt haha!  Í smsinu sagði að dresscode'ið væri fancy svo við fórum allar stelpurnar og klæddum okkur upp, hælar og gerviaugnhár, classic.

IMAG1534 

Ég, Jason (sem býr á hæðinni fyrir neðan), Natasha fyrir ofan, Taylor að beygja sig og Jessie önnur þeirra sem er með mér í herbergi :) 

Háskólinn var frekar langt í burtu svo við þurfum að taka 2 lestir þangað, það tók að vísu alls ekki langan tíma. Hins vegar var labbið frá lestarstöðinni og í partýið mjög langt, næstum hálftími svo þær sem voru í háum hælum voru orðnar freekar þreyttar í löppunum. En að lokum komumst við þangað sem betur fer! Þeir voru ekki alveg á því að hleypa okkur inn fyrst en með smá suði breyttu þeir um skoðun :P Þetta hús var riiiiiisa stórt!! Á þremur hæðum + kjallari þar sem var DJ, það var líka DJ á fyrstu hæðinni og á hinum tveimur voru svefn-, sjónvarps- og baðherbergi, stórar stofur og eitthvað fleira. Það var allt fullt af fólki og alveg hrikalega góð stemning!

IMAG1547 

En eins og með öll önnur partý var löggan ekki lengi að komast á slóðir um það, við náðum að vera þarna í næstum 2 tíma áður en þetta teiti var stoppað. Það getur verið mjög alvarlegt ef löggan kemur að krökkum sem eru í kringum áfengi og undir 21 árs hvað þá ef maður er ekki frá Bandaríkjunum svo við svona hálfpartinn hlupum í burtu haha! Við tókum leigubíl til baka á Boylston Street (gatan sem Berklee er m.a. á) og þar var annað partý í gangi, afmælisveisla stráks í skólanum. Við kíktum þangað inn í svona hálftíma en þá var bara kominn tími á að koma herbergisfélga mínum heim haha :) Mari var úti með öðrum vinum svo við Jessie tókum Cappy's með uppá herbergi og átum sneiðarnar með bestu lyst! Svo kósý bara við tvær aðeins að spjalla í friði :) 

Sunnudagurinn fór bara í að klára smá heimavinnu, útihlaup og leti. Svo fínt að taka svoleiðis daga inn á milli :) Kítki reyndar í Whole Foods líka og keypti smá brauð og eitthvað til að hafa uppá herbergi þegar maður verður svangur en nennir ekki að labba uppí skóla.

Endalaust úrval af góðum hráefnum í Whole Foods! 

Ég fór svo með strákunum á neðri hæðinni á 5 Guys sem er hamborgarastaður hérna rétt hjá. Frekar ódýr miðað við gæði myndi ég segja, hamborgari með 2x kjöti, og öllu mögulegu meðlæti á 700 kall! Klárlega staður sem ég mun fara með gesti á :P

Það komu 2 brunabílar og allt

Á mánudaginn vaknaði ég rétt fyrir 8 og var mætt í morgunmat 8:30 með Jessie. Við vorum búnar að fá okkur skál af hafragraut og vorum bókstaflega að setjast niður með það þegar brunabjallan fer í gang! Venjulega kippir maður sér ekkert mikið upp við það en um leið og hún hringdi hlupu allir út úr matsalnum. Við vorum báðar mjöög svangar og hálfsofandi ennþá svo við vorum ekki beint sáttar haha. Það voru allir reknir út á gangstétt og við þurftum að bíða þar í örugglega ca. 40 mínútur.

Við föttuðum eftir svona hálftíma að það er kaffihús rétt hjá þar sem við getum látið strauja Berklee kortið okkar fyrir mat alveg eins og í matsalnum. Ég fékk mér mjög góða jógúrt með múslí og deginum var þar með bjargað :)

 

 

 

 

 

 

 

 

Lengra verður það ekki núna  

  


Mínútan í Berklee kostar 1 dollara og 40 sent!

Lag dagsins:

 

Ooooh hún er svo flott!!

 

Fun fact

Mínútan í Berklee kostar 1 dollara og 40 sent!

 

Jæjaa fólk! Mikið að gera hjá manni þessa dagana svo ég efndi ekki alveg loforðið um blogg annan hvern dag en það stendur allt til bóta!

 

Ég fór í fyrsta samspilstímann minn á þriðjudaginn og vá hvað ég skemmti mér vel! Ég er sjúklega heppin með tíma, er eini söngvarinn sem er mjög óalgengt því yfirleitt eru söngvarar settir saman í samspil því við erum jú svo ótrúlega mörg. Það eru 3 gítarleikarar, einn bassi, einn trommari og ein stelpa á píanó. Þau eru öll súper krúttleg og kennarinn er algjör snillingur. Hann sagðist ætla að kalla þetta Inga's Project og mér leist nú bara aldeilis vel á það haha! Við spiluðum 3 lög,  The Game of Love, Sir Duke og Josie sem ég kunni þegar eftir samspilið heima. Kennarinn spurði mig hver væri minn uppáhalds artisti og ég sagði Beyoncé, þá sagði hann já frábært, ég er með nokkur lög eftir hana, við tökum þau í næstu viku, uuuuu get ekki beðið eftir að fara í tímann!! Þetta eru 2 klst tímar svo það er nægur tími til að vinna í nokkrum lögum. Svo verða tónleikar í lok annarinnar með því sem veðrur svona best of dæmi. Ég fór út alveg í sæluvímu og beint í æfinga herbergin til að æfa lögin. 

 

Miðvikudagur 

Veðurspáin fyrir miðvikudaginn hljóðaði upp á sjúklega heitan dag og viiiti menn, það rættist bara algjörlega. Ég vaknaði kl 9:30 í svitabaði svo ég fór bara á fætur og settist aðeins á gólfið fyrir framan viftuna svo það myndi ekki líða yfir mig þarna. Stelpurnar voru farnar í tíma svo ég hafði það bara rólegt þar til klukkan varð rétt fyrir 11 til að fara þá í tíma. Ég nennti ómögulega að labba í sólinni til að fara í morgunmat svo ég gerði mér hafragraut í örbylgjunni, klæddi mig svo í víðan kjól til að geta verið úti haha.

Á leiðinni í skólann 

Tímarnir tveir (tónfræði og tónheyrn) liðu hratt svo ég var komin upp á herbergi áður en ég vissi af. Þar var algjörlega ólíft svo ég fór niður í æfingaherbergin og var þar eiginlega þar til það var komið að kvöldmat. Klukkan 6 var svo komið að fyrsta enskutímanum. Þeir eru 3 klst svo ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast. Við settumst inn og biðum í ca 5 minutur eftir kennaranum. Hann afsakaði sig alveg hægri vinstri á því að vera svona seinn en svo fórum við að sjálfsögðu í gegnum klassíska kenningaferlið, Hi my name is Inga and I'm a vocalist from Iceland. I play the guitar and piano and I coach gymnastics and like to cook when I'm not working on my music. Alltaf það sama sem maður segir haha. Það kom í ljós að það ertöframaður í hópnum sem mun klárlega gera þessa tíma mun skemmtilegri í vetur. Hann var að sjálfsögðu með spilastokk á sér og sýndi okkur einn spilagaldur, hrikalega góður í því sem hann gerir. Við fengum korters pásu og skelltum okkur á Starbucks á meðan, jömmí :) 

Þegar ég kom heim voru stelpurnar farnar að gera sig til því það átti að kíkja eitthvað út. Við hittumst öll í íbúð stelpnanna og röltum svo af stað niðrí bæ. Vinkona okkar á vin í MIT sem var búinn að bjóða okkur í,,frat party" sem eru haldin í bræðrafélagshúsum skólans. Fínasta partý en við fórum snemma þar sem að það var nú skóli daginn eftir. 

Ég og Mari (annar herbergisfélaginn) 

 

Fimmtudagur 

 Fyrsti og eini tíminn var klukkan 9-11. Mjög erfitt að vakna eftir kvöldið áður og þreytan sagði mjög til sín í þessum langa og leiðinlega tíma. Það eina sem við gerðum var að hlusta á kennarann tala um sjálfan sig í tvo tíma, ég meina auðvitað dottar maður við það.. :P Ég fór í hádegismat eftir tímann og svo uppá vist til að leggja mig aðeins. Fór svo út að hlaupa og skellti mér svo í smá bæjarrölt. 

Svooo gaman að búa rétt hjá H&M!

Fór í bankann að útrétta aðeins og kíkti svo aðeins við hjá vinum mínum í H&M og Forever 21. 

Hafði óvenju mikin hemil á mér og keypti ekki neitt.  Ekki mikið að gerast þennan dag svo lengri verða ekki skrifin um hann.

 

Föstudagur 

Tveir tímar á stundaskránni fyrir þennan dag. Tónfræði kl 11 og tónheyrn kl 12. Þeir liðu mjög hratt og þegar ég var búin að borða hádegismat fór ég strax uppá herbergi til að klára heimavinnuna fyrir helgina. Mikið ofboðslega var það góð tilfinning að vera bara búin og þurfa ekki að klára allt í gær (sunnudag) eins og hinir hehe :) Við hittumst í íbúðinni hjá stelpunum og vorum þar meira og minna allan daginn, einn tók upp gítarinn sinn og fór eitthvað að raula með honum, svo áður en við vissum af vorum við farin að syngja 4 raddað með beat boxara og aallan pakkann, ég elska þetta umhverfi og þetta fáránlega hæfileikaríka fólk! Þegar við vorum búin að borða fórum við aftur í íbúðina því jú það átti að partýast. Við vorum hrikalega lengi að koma okkur út svo enn og aftur lentum við í því að partýin voru búin þegar við komum þangað (löggan er snögg að koma og stoppa allt). Það var pínu bömmer en við fórum bara til baka, fengum okkur Cappy's pizza (heimsins mesta snilld) svo gistu tveir vinir okkar í herberginu hjá okkur. Þetta var búinn að vera mjög heitur dagur og þegar við vorum orðin 5 í herberginu var það eiginlega bara ólíft svo við vorum öll meira og minna andvaka.

 

Laugardagur 

Við dröttuðumst á fætur um hádegi og fórum í mat. Þaðan fórum við uppáherbergi aftur til að skipta um föt og eitthvað því við ætluðum á tónleika. 

Endalaust mannhaf

Gavin DeGraw, Backstreet Boys og Of Monsters and Menvoru með fría tónleika í almenningsgarði hérna rétt hjá. Svæðið opnaði kl 1 og tónleikarnir áttu að byrja kl 4. Enn og aftur vorum við pínu kærulaus og lögðum allt of seint af stað. Vorum komin á svæðið um 15:30 og þvílíkt og annað eins mannhaf!! Þau voru löngu hætt að hleypa fólki inn á svæðið svo við sátum fyrir utan þar sem maður sá eiginlega ekki neitt en heyrði reyndar vel.

Við sungum háátt með Gavin, In Love With a Girl, Chariot, I don't Wannabe, ekkert smá gaman að heyra þetta!

Krúttlegustu roommates :)

 

En við nenntum ekki að hanga þarna lengur, það var orðið soldið kallt og okkur sýndist rigningin vera alveg á næsta leyti. Við löbbuðum þá til baka, fórum í mat og viti menn, það var aftur komið að partý undirbúning. Í þetta skiptið var fullt af fólki í íbúðinni sem við höfðum ekki séð áður svo í þetta skiptið vorum við ekki lengi að reka alla út of komumst sjálf af stað á skikkanlegum tíma. Það var aftur búið að bjóða okkur í partý hjá MIT fólkinu og núna var það allt annað mál.

Svo gaman!! 

Beerpong, DJ-borð, bjórkútur, stelpur að gera sig að fífli og algjörir tappa strákar, nokkuð typical háskólapartý myndi ég segja. Hrikalega gaman og fullt af skemmtilegu fólki. Við vorum til að verða 2 og fórum svo bara að sofa.

 

Sunnudagur

Verið að elda

Það var ágætis skemmtanaskattur í gangi daginn eftir (já nú er kominn tími á smá partýpásu) svo við fengum okkur egg og beikon í brunch. Ég fór aftur uppáherbergi og lagði mig í ca 3 tíma haha. Það var agalega næs, ég lá svo bara og horfði á þætti og skype'aði fram að kvöldi. Vinur okkar ákvað svo að vera mesta yndi í heimi og elda aftur fyrir okkur. 

 

Hamborgarar voru það í þetta skiptið og alveg sjúklega góðir í þokkabót!! Þetta eru klárlega stundirnar sem maður á eftir að muna best, elda saman, spjalla, segja nokkrar hræðilegar draugasögur og bara gaman :)

 

 

 

 

 

 

 

 

Búnar að setja upp hilluna inná baði

Við vorum komnar uppá herbergi kl 23 og þá áttum við nú stórt verkefni fyrir höndum! 

Jessie var nýbúin að fá senda hillu til að setja upp inni á baðherbergi og það þurfti að skrúfa hana saman. Auðvitað redduðum við því eins og ekkert væri, með smá skakkaföllum kannski en það spilar ekkert inní! Hillan lúkkar hrikalega vel þarna inni á baði og við fórum mjög stoltar að sofa :P

 

 

 

 

 

Mánudagur 

Mánudagar verða sennilega alltaf erfiðustu dagar vikunnar, ég byrja á tveggja tíma tónfræði kl 9 og svo tónheyrn kl 12. Þetta hljómar ekki eins og mikið en tónfræðin er mjög strembin hérna þrátt fyrir að þetta sé bara level 1, það að kunna ekki ensku orðin fyrir tónfræðiheitin er náttúrulega soldið hindrandi en ég er og hef alltaf verið mjög flót að læra svo ég hef svosem ekki neinar brjálaðar áhyggjur. Ég kom ekki i þennan skóla með það í huga að þetta yrði eitthvað auðvelt :) Ég notaði eyðuna á milli tímanna til að læra og borða og æfði mig svo eftir það fyrir prufu sem ég fór í. Hún var fyrir Singer's Showcase sem eru tónleikar sem sýna þá allra bestu í söngdeildinni. Það er mjög sjaldgæft að nýnemar séu teknir inn en auðvitað tekur maður samt þátt! Það voru örugglega eitthvað um 200 sem tóku þátt en bara 25 sem eru teknir í call back auditions og þaðan enn færri sem fá að vera með í tónleikunum. Mér gekk mjög vel, tók Stúlkan sem starir á hafið og spilaði sjálf á píanó. Því miður var ég ekki kölluð í endurprufur enda átti ég nú ekki von á því :) Á fimmtudaginn eru svo aðrar prufur fyrir það sem er kallað Singer's Night. Við ætlum að fara fimm saman og taka Royals með Lorde, prófuðum að æfa það í gær og það hljómaði hrikalega vel! Bara spennandi.

 

Núna er ég bara að bíða eftir að fara í samspil og tíminn er eiginlega að líða allt of hægt, ég er svo spennt að fara haha!

 

Þar til næst ...  

 

Charles River er falleg!

 


Fyrstu dagarnir í skólanum

Lag dagsins:

 

 

Jæjaaa, núna er skólinn loksins byrjaður og tímarnir lofa alveg rosalega góðu! Það eru byggingar út um allt svo stundum getur verið hrikalega flókið að finna út hvar næsti tími er svo thank god fyrir Google Maps! 

 

Sunnudagurinn var svo ægilega ómerkilegur að ég ætla bara ekkert að skrifa um hann, héngum bara uppá herbergi með pakkanúðlur og kósý.

Mánudagurinn hinsvegar, þá fóru hlutirnir að gerast! Við Jessie vöktum frekar lengi sunnudagsnóttina til að bíða eftir hinum herbergisfélaganum okkar, Mari. Hún var einhverstaðar úti og svaraði ekki símanum sínum svo okkur stóð ekki alveg á sama. Hún skilaði sér þó eitthvað um 2 leytið svo ég steinrotaðist þá. Fyrsti tími á stundaskránni var klukkan 9 en það var furðu auðvelt að vakna, enda mikill spenningur fyrir fyrsta skóladeginum! Við fórum í morgunmat en þar voru allir að deeyja úr stressi fyrir fyrstu tímunum sínum. Ég var furðu róleg, ég veit ekki alveg afhverju maður ætti að vera eitthvað stressaður, ég meina ef maður er með bygginguna og herbergisnúmerið á hreinu þá bara spyr maður staffið þangað til maður rambar á réttan stað. Svo eru allir sem við erum með í tímum nýjir hérna, við erum alls ekki ein í þessum sporum :)

Fyrsti tíminn minn var Music application and theory sem er í grunninn bara tónfræði. Kennarinn minn þar er alveg hrikalega svöl, soldill hippi í sér og voða róleg en engu að síður fairly ströng. Hún tók nafnahring til að leyfa fólki að kynna sig og það tók svona mest allan tímann. Þessi tími er 2 klst. sem er alveg soldið erfitt, ég meina, 2 tíma tími klukkan 9 á mánudagsmorgni... Best að passa sig á því að gera ekki neitt á sunnudögum er það ekki! Haha.. Hún tók svo smá svona kynningu á efni áfangans og úff.. Ég mun sko þurfa að hafa fyrir þessu! Ég vissi ekki einusinni hvað G-lykill heitir á ensku og frábært, ég er aftur búin að gleyma því... :P Það að ég kann ekki tónlistarheitin á ensku mun hindra mér aðeins en ég verð nú vonandi ekki lengi að ná því :) Eftir þennan tíma var ég með klukkutíma eyðu svo ég skaust aðeins uppá herbergi til að heyra hvernig fyrsti tíminn hjá stelpunum (Jessie og Mari) var. Ég tók stuttan hádegismat, leyfi mér aðeins og fékk mér pizzu, oooh þær eru svo góðar í þessu mötuneyti, það er hættulegt! Þá var komið að ear training 1 eða tónheyrn 1. Ég skil eiginlega ekki afhverju ég var sett í þennan  áfanga því þetta virkaði alveg hrikalega létt. Hrynur með í mesta lagi 8parts nótum og laglínur sem eru næstum því bara skalarnir í C-dúr, sem er (fyrir þá sem skilja ekkert hvað ég er að tala um) í rauninni bara það léttasta sem maður gerir. En á morgun og föstudag eru próf sem maður getur tekið til að komast upp á hærra level. Kennarinn í þessum tíma var líka mjög kúl, frekar ungur maður með hipster gleraugu og voða chill týpa. Við fórum uppá vist og fengum okkur örbylgju Mac'n'cheese sem er  alveg klárlega málið, háskólamaturinn sko! Ég tók stutt útihlaup, er farin að passa mig að gera það nógu snemma núna afþví ég týndist næstum því í fyrradag klukkan 8 um kvöldið í myrkrinu, kannski líka sterkur leikur að fara ákveðina leið í stað þess að hlaupa bara einhvert :P Það var mjög heitt úti og ég var greinilega ekki búin að drekka nóg svo í miðju hlaupi fór mig að svima aðeins. Þá rölti ég bara heim, tók kalda sturtu og drakk miiikið af vatni þegar ég kom aftur. Klukkan 19 var svo komið að fyrsta söngtímanum. Ég var pínu nervös því ég vissi eiginlega ekkert við hverju ég átti að búast. Ég bankaði á hurðina og við mér tók alveg yndisleg kona! Frekar smávaxin en með persónuleika á við fjóra, enda svört og veit sko alveg hvað hún vill. Hún byrjaði á því að hlusta aðeins á það sem ég hef verið að gera á YouTube til að fá smá tilfinningu fyrir því hver ég er. Ég útskýrði aðeins Completa Vocal Technique fyrir henni sem ég hef verið að læra seinustu 6 ár hjá henni Elfu minni.  Svo bað hún mig um að sýna sér dæmi um það sem ég hef verið að gera í tímum svo ég tók einhverja skala, raddæfingar, vocal breaks og fleira í slíkum dúr. Hún var mjög hrifin af því sem ég gerði svo hún vildi heyra mig taka And I am telling you sem var ótrúlega gaman. Hún gaf mér svo lag til að vinna í, Moody's Mood for Love, sjúklega kúl lag!

  

Restin af deginum/kvöldinu fór eiginlega bara í að ,,hanga" (rosa slæmt að ég geti ekki komið með betra orð, sorry..) Jessie, önnur stelpan sem er með mér í herbergi, er svona eiginlega að deita einn algjöran krútt spánverja (hlutirnir eru ekki lengi að gerast hérna haha) svo hann og strákarnir á hæðinni fyrir neðan voru hjá okkur eitthvað fram á kvöldið. Við hengdum upp fullt af myndum á veggina og skrifuðum svo lista yfir hluti sem okkur langar að kaupa fyrir herbergið eins og t.d. fisk! Förum vonandi og reddum því bráðum :D

 

Í dag var fyrsti tíminn ekki fyrr en klukkan 11 svo ég gat aðeins sofið út sem betur fer því ég var rosalega þreytt eftir gærdaginn. Sá tími var Intruduction to music tech sem mun kenna okkur að nota Pro Tools, Reason, Finale og fleiri forrit sem er frekar nauðsynlegt að kunna á í tónlistarheiminum. Þegar maður kemur í skólann kaupir maður software pakka sem inniheldur þá ProTools, Digital Performance, Reason, Finale og Office pakkann, algjör snilld að hafa þetta allt í tölvunni. Tíminn fór í kynningar og þar sem að við erum 30 í bekknum þá tók það eiginlega allan tímann. Kennaranum er greinilega alveg sama ef maður notar tölvurnar sínar í tíma svo ég nýtti smá stund til að skrifa þetta blog.. :P 

Á eftir klukkan 16 (20 á íslenskum tíma) er ég að fara í fyrsta samspilstímann. Það er R&B, pop/rock og jass samspil sem er alveg rugl spennandi, ég get ekki beðið!! Verður líka spennandi að sjá hvernig fólki ég lendi með. Eftir stöðuprófið í söngnum fékk ég 3.5 í overall einkunn sem var reyndar lækkað niður í 3 en ég hef það sem markmið að komast upp á stig 4 svo þá hef ég eitthvað til að vinna að á þessari önn. Bara til að útskýra það aftur þá stendur 3 fyrir önn 3, svo yfirallt eru mínir hæfileikar metnir á við nemanda á 3. önn sem er bara frábært :)

 

Á morgun er svo spáð meira en 30 stiga hita!!

 

Þar til næst :) 


That's what's up

Lag dagsins

 

Fun facts

 

  • Partýin hérna eru pretty much eins og í kvikmyndunum, allavega það sem við fengum að kynnast í gær
  • Smá Suðusúkkulaði getur kætt og bætt alla
  • Í dag eru um 25°C úti en ég er inni að blogga, ææ það er svo kósý hjá okkur í herberginu svo það er alltílagi :) 

 

Lífið er farið að rúlla vel hérna. Það auðveldar náttúrulega allt að vera með bandarískt númer til að geta náð í krakkana til að hittast og svona, það fyndna er samt að fyrir viku var ég ennþá á Íslandi og þekkti ekki eitt einasta þeirra en núna líður mér eins og ég hafi þekkt þau í marga mánuði. Ég held að aðstæðurnar séu bara þannig að það eru allir nýjir hérna og allir hræddir um að passa ekki inn eða finnast eins og maður eigi ekki heima í hópnum svo fólk er fljótt að opna sig fyrir hvort öðru.

 

Við fórum á fund fyrir erlenda nemendur á fimmtudagsmorguninn sem var svona frekar áhugavert (ef það er rétta orðið). Þau voru t.d. að kenna okkur hvernig maður tippar á veitingastöðum og hvernig er best að heilsa fólki á götunni. Frekar fyndið dæmi. En því miður eru Kanarnir ægilega talglaðir svo fundurinn varð næstum tveir tímar.

International fundur 

Það var einhver leti í mér svo ég slepti næsta fundi sem var eitthvað um ear training eða tónheyrn, einhverskonar kynning á því. Við skeltum okkur þó á fyrirlestur um vinnu með skóla og hvernig maður á að plana afkastamikinn feril í tónlist. Nokkuð áhugavert og gaman að heyra hvað reynsluboltar hafa að segja um svona. Við löbbuðum þá í svona multicultural partý sem var á einni hliðargötunni. Þar var búið að setja upp fána, tjald og DJ-borð og fólk dansaði bara þarna á miðri götunni. Lögreglan beindi umferðinni annað á meðan. Frekar skemmtileg hugmynd og ótrúlega fyndið að sjá alla blá edrú dansandi eins og þau ættu lífið að leysa :P

Multicultural partý 

Við vorum þarna í svona klukkutíma áður en við fórum svo í mat. Ég og Mari (annar roommate'inn minn) fórum inní matsal en þar hitti hún nokkra vini sína svo við settumst hjá þeim. Þetta voru allt svartir krakkar (sorry ég kann ekki að segja þetta á betri hátt) og sennilega fyndnasti matartími sem ég hef verið partur af. Þau, eða aðallega strákarnir sögðu that's what's up í annari hverri setningu og ef einhver sagði eitthvað merkilegt eða hið minnsta sjokkerandi þá stukku þeir allir upp alveg brjálæðislega impressed af því sem var sagt. Þið sem skoðið Vines reglulega vitið hvað ég er að tala um, þetta er alveg sjúklega fyndið!

Eins og öll önnur kvöld fórum við í íbúðina hjá stelpunum fjórum og vorum bara þar að spjalla langt fram á kvöldið. 

 

Föstudagur

Ég ákvað að sofa bara vel út í gær, við nenntum ekki framúr fyrr en svona 11:30 og hefðum örugglega sofið lengur ef strákarnir á 4. hæðinni hefðu ekki komið og dregið okkur framúr. Já ég var kannski búin að gleyma að segja frá þeim, við kynntumst tveimur strákum sem búa á hæðinni fyrir neðan okkur sem eru líka nýnemar. Þar sem að vistin sem við erum á er aðallega fyrir eldri nemendur er voða fínt að hafa einhvern á sínum aldri hérna, þeir eru algjör yndi. En allavega... Við fórum í Welcome back BBQ fyrir alla nemendur skólans og váá hvað það voru margir! Hamborgarar, pulsur, grænmeti og salat, snakk, gos, ís og allur pakkinn. Veðrið var geðveeikt svo við nutum þess bara að sitja í sólinni með kalda Pepsi og snakkpoka :)

BBQ 

BBQ 

BBQ 

Síðan kom til okkar strákur sem bauð okkur í prufur fyrir rokk accapella grúppu (eins og í Pitch Perfect já) , þessar prufur eru 25-28. sept og við ætlum alveg klárlega að skella okkur!! Þegar grillið var búið var komið að því að hitta leiðbeinandann okkar til að fá stundaskrárnar afhentar og ég er vægast sagt með geðveika stundaskrá! Ég fer aldrei í meira en 3 tíma á dag og á fimmtudögum er ég bara í einum tíma  klukkan 9 og svo á ég bara frí restina af deginum.

Stundaskrá

Music application & theory - tónfræði, nótnaskrift og fleira í þeim dúr

Ear training - tónheyrn

Private instruction - einkasöng tímar

Music tech - rafræn vinnsla tónlistar, Pro Tools, Logic og fleira. Ég labbaði framhjá kennslustofunni fyrir þessa tíma í gær, sjiitt hvað hún er kúl! DJ-borð hjá öllum og allt!

Ensamble - samspil. Ég er sett í R&B, Popp/rokk og jass samspli, gæææti ekki verið betra!!

Writing and communication - ensku tímar (ég slepp við ensku fyrir útlendinga, fjúkk)

Artistry, creativity and inqury -  Eitthvað svipað og lífsleiknin í FVA 

 ------------------

Við fórum til stelpnanna eftir þetta og gerðum okkur til fyrir kvöldið. Það var að vísu ekkert alveg planað hvert ætti að fara en það átti bara að koma í ljós. Þegar leið á kvöldið fór íbúðin algjörlega að troðfyllast af fólki sem við höfðum aldrei séð eða heyrt um svo þær enduðu á því að reka næstum því alla út. Við vorum ca 10 eftir og röltum þá í miðbænum í átt að einhverju partýi sem vinur eins stráks í hópnum var að halda. Á leiðinni stoppuðum við fyrir utan eitthvað hús til að tala við fólk sem endaði einhvernveginn með því að okkur var boðið inn í partý. Það var nú meira!! Bara eins og college partýin eru í kvikmyndunum, fólk aallstaðar, tónlist í botni, drykkir í boði fyrir alla, fólk að dansa upp á borðum og strákar að dirty dansa við stelpurnar upp við veggina! Ég hló smá fyrst, fannst þetta svo óraunverulegt en þegar við hættum að spá í þessu þá var þetta bara sjúklega gaman :D En eins og vill svo oft gerast hérna úti þá fréttist það að löggan væri á leiðinni til að slútta þessari gleði svo við létum okkur hverfa. Ég frétti svo frá vini mínum að löggan hafi komið bara örstuttu eftir að við fórum svo það var klárlega góð ákvörðun hjá okkur að fara. Við stoppuðum til að fá okkur pizzu á stað sem er í sömu byggingu og heimavistin okkar og opinn fram á nótt, hveeersu nice! Fékk alveg riisa pepperoni pizzusneið á 300 kall, það kalla ég alveg ágætis díl bara. 

Laugardagur 

Það er einn snillingur í hópnum sem er rosalega góður kokkur, ég sagði frá því í seinasta bloggi þegar hann eldaði kvöldmat handa öllum um daginn, hann toppaði það algjörlega í morgun þegar hann hringdi í okkur og sagði að hann væri klár með brunch handa okkur. Við mættum í stelpuíbúðina þar sem hann var í óðaönn við að steikja beikon.

Brunch 

Oh hvað þetta var gott!! Og ekkert smá kósý, öll inní stofu að rifja upp gærkvöldið með góðan mat og góða tónlist. Svo tókum við bara hóplögn og sváfum í svona klukkutíma. Eins og ég var örugglega búin að minnast á áður þá búa fjórar stelpur í þessari íbúð sem er bara frábært een málið er að ein þeirra er frá Kóreu og talar aldrei (já líka eins og í Pitch Perfect) svo hún hengur alltaf bara inni í herbergi þegar við erum þarna greyið, örugglega ömurlegt að vera með 3 stelpum í íbúð þegar maður kann ekki ensku. Anyways, þegar við vorum öll vöknuð röltum við tilbaka uppá vist og erum núna bara búnar að horfa á þætti og liggja í leti, til þess eru helgarnar er það ekki? Förum svo bráðum að gera okkur klárar fyrir kvöldið, erum búin að fá boð í M.I.T. partý (Massachusetts Institute of Technology), það kemur sér svo vel að eiga vini með sambönd! Ef þetta verður eitthvað svipað og í gær þá erum við in for a good night!

 

Boston að næturlagiBoston að næturlagi

 

Well, well elsku þið...

until next time  

 


Það er bara eitthvað við þetta!

Lag dagsins

 

 

Fun facts..

 

  • Ég klæddi mig í síðar buxur og peysu í fyrsta skipti í dag, ágætis tilbreyting að vera ekki að kafna þar sem að heimavistirnar eru ekki loftkældar.
  • 1391 af 4521 nemandum í skólanum eru erlendir, það eru ca 30%
  • 70% nemenda eru karlkyns en full mikið af smávöxnum asíubúum fyrir minn smekk.. :P
  • Í Placement Audition sem ég fór í (tala um það fyrir neðan) fékk ég...
    -2 fyrir nótnalestur
    -5 fyrir undirbúið lag, ég söng Summertime
    -3 fyrir spunasöng
    -4 fyrir takt tilfinningu yfirhöfuð
Málið með þessar tölur er að allir eru ,,dæmdir" frá 1-8. 1-8 stendur fyrir annirnar í skólanum svo að ég er til dæmis talin vera komin á aðra önn hvað varðar nótnalestur og fimmtu önn hvað varða sönginn sjálfann og svo framvegis. Þetta eru hrikalega góðar tölur verð ég að segja og þær komu mér töluvert á óvart. Flestir nýnemar eru að fá 1-3, þar sem einn er þá eins og að byrja á byrjunarreit og yfirleitt ekki mikið hærra hafa þeir sagt. Þessar tölur hjálpa til við að koma okkur í viðeigandi einkatíma sem og samspil. Bara gleði :)

 

 

Þetta eru frekar þægilegir dagar í þessari orientation viku. Það er einn og einn viðburður yfir dagana svo ég hef verið að nýta dauðan tíma til að skoða aðeins í kringum mig.

Ég byrjaði þriðjudaginn á því að taka stöðupróf í tónfræði. Prófið var í tveimur hlutum og alveg frekar þungt. Ég gat svarað öllu í fyrri hlutanum en bara nokkru í þeim seinni enda er hann ,,advanced" eins og þau kölluðu það. Fólk var að taka prófið á allt frá klukkutíma og upp í fjóra. Ég fór út eftir tæpa tvo, búin að gera eins mikið og ég gat.

IMAG1434

Þar sem að stelpurnar voru ekki heima þegar ég kom aftur upp á herbergi, ákvað ég að kíkja aðeins í bæinn og sjá hvort ég myndi ekki ramba á verslunargötuna sem og ég gerði, hún er í 5 mínútna göngufæri oog viti menn, það fyrsta sem blasti við mér..  Forever 21 búð á fjórum hæðum! Ég hálfpartinn hljóp inn og endaði á því að gera mjög góð kaup eins og sönnum Íslendin sæmir :)

 

IMAG1435

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég rölti götuna og einhvernveginn tókst mér svo að finna mollið líka sem er bara rétt hjá og þar var allt morandi í góðum búðum. Ég verslaði smá snyrtivörur en þurfti svo að koma mér til baka fyrir næsta stöðupróf í skólanum sem var fyrir erlenda nemendur vegna enskunnar.

IMAG1426

 

 

 

 

 

Við fengum ritgerðaspurningu sem við áttum að svara og svo vorum við tekin í stutt viðtal, allt voða létt og mellow. Ég kom við uppá herbergi og horfði á einn Mistresses þátt á meðan ég beið eftir að stelpurnar myndu klára sín próf. Þegar þær komu kíktum við aftur á röltið, ég reddaði mér loksins bandarísku númeri með ótakmörkuð símtöl og sms og 500 MB á mánuði, bara nokkuð góður díll sem ég fékk því vá, fólk smsast mjöög mikið hérna. Bæjarröltið varð svo sem ekki langt svo við fórum bara í mat. Eftir hann var ískvöld hjá okkar heimavist (það eru 3 heimavistir + nokkrar íbúðir aðeins lengra í burtu), roosalega góður súkkulaði ís mmmm :) Þetta var niðrí kjallara en þar er sjónvarpsherbergi með RISA flatskjá, heimabíó, ping pong borði, sjálfsala og you name it, fullt af æfingaherbergjum, þvottaherbergi og sameiginlegt eldhús. Ég skal alveg viðurkenna það að þótt að veggirnir séu við það að hrynja sumstaðar í byggingunni og það þurfi spýtur til að halda gluggunum uppi þá finnst mér þetta alveg einstaklega kósý! 

Við erum búnar að koma okkur upp æðislegum hópi af fólki sem við erum búnar að hitta öll kvöld síðan við komum hingað. Við fórum heim til nokkurra stelpna úr þessum hópi en þær búa í frekar stórri íbúð sem rúmar okkur ágætlega. Hérna eru allir rosalega spenntir að heyra í hvort öðru syngja eða spila svo við enduðum öll á því að taka eitt lag. Í lokin vorum við eiginlega bara farin að spila öll saman, gítar, fiðla, hljómborð, margraddað og trommað á allt sem fyrir var. Hriikalega gaman og vávává ekkert smá hæfileikaríkt fólk!! En eins og gefur að kynna, orðið mjög heitt í íbúðinni svo við fórum út að Charles River ánni sem er alveg greinilega the place to be fyrir college nemendur, þar er alveg ofboðslega fallegt að vera á kvöldin. Hittum fleiri háskólakrakka úr öðrum skóla þar og sátum á bryggjunni til að verða 2 um nóttina. Þá fór fólk að tínast heim

 

Miðvikudagur 

 Við fórum ekki að sofa fyrr en um 3 nóttina áður svo ég fór aðeins seinna á fætur heldur en ég hafði planað. Ég tók þá bara morgunmatinn í hádeginu, fínasta pasta og besta glúten lausa pizza sem ég hef fengið. Tíminn flaug frá mér, maður gleymir sér algjörlega við að tala við nýtt og áhugavert fólk svo ég hálfpartinn hljóp uppá vist til að æfa mig aðeins og hita upp fyrir placement audition sem var klukkan 2 hjá mér.  Ég náði góðum hálftíma í það sem dugði bara akkúrat fyrir mig svo ég hélt af stað aftur niðrí skóla. Andrúmsloftið var létt og maðurinn sem var með yfirhönd yfir prufunni var ægilega heillaður af því að ég væri frá Íslandi. Svo virðist reyndar vera að hvar sem ég kem er fólk alltaf jafn gapandi og spennt yfir þessum skrítna útlending sem ég er, bara gaman af því :) En hvað sem því líður þá gekk prufan mjög vel, kannski fyrir utan nótnalesturinn en ég meina, við erum öll hér til að læra er það ekki?? Ég gekk allavega mjög ánægð út. Seem náttúrulega kallaði á það að kíkja pínu í búðirnar aftur, í þetta sinn með markmið, að finna Eastern Bank (þar sem ég er með banka reikning) og H&M.  Þótt

IMAG1446ótrúlegt megi virðast þá fann ég bankann á no time og eftir viðskiptin þar rambaði ég beint á H&M, það besta var þó að hliðina á þeirri búð var MAC (snyrtivörubúð) og það gladdi mitt litla hjarta innilega, gat keypt mér varalit á 1800 kr en ekki 4500 kr eins og heima!!

H&M stóð að sjálfsögðu fyrir sínu og ég kom nokkrum númerum glaðari út :) Reyndar bara með einn poka en ég meina, ég er fátækur námsmaður :P

 

 

 

 

 

Eftir kvöldmatinn var síðan svokallað opið jam session þar sem hver sem er mátti skrá sig til leiks og spila, bara með einhverjum, þvílík stemning og þvílikir talentar þarna, þetta er bara eins og í bíómyndunum! Við hittumst svo aftur sama grúppan í sömu íbúð til að borða saman, einn af okkur eldar mjög vel og gerði þarna pastarétt handa ca 17 manns eins og ekkert væri!

 

 Það er ótrúlega gott að vera búin að finna hóp af fólki sem manni líður vel með, við erum svona ca 10-15, fer eftir því hverjir mæta.

Strax farin að bonda með fólkinu

En ætli þetta breytist ekki allt þegar skólinn actually byrjar og maður fer að kynnast öðru fólki í tímum :)

Svo er eitt sem ég elska hérna, það eru allir svo almennilegir!! Bara í gær var ég að labba um Newbury street og þá kemur stelpa og segir, vá ég elska kjólinn sem þú ert í! Og hvert sem maður fer þá brosir fólk til manns, ekki skemmir það nú þegar svo skemmtilega vill til að það eru myndalegir drengir :):) Annað sem er frekar fyndið er að ég tók með mér svarta skó með gull studs á og ég get svo svarið það, allavega 10 manns eru búin að hrósa mér fyrir þá, þessu myndi maður aldrei lenda í á Íslandi því miður :(  

 

Í dag svaf ég út, kom mér svo loksins út að hlaupa, ætli það sé ekki með betri leiðum til að læra á borgina :) Ég ætla svo út að grocery shoppa núna (íslenskuleysið er að gera mér grikk) og taka svo kannski einn power nap eða svo, ég elska lífið :)

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

The Big City Life!

Höfundur

Inga María Hjartardóttir
Inga María Hjartardóttir

Tvítug Skagastelpa búsett í Boston

http://www.gofundme.com/icelandersdream

Instagram

 

https://www.facebook.com/pages/JINKS/1589805677910069?ref=hl

https://www.facebook.com/ingamariamusic

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 10958948 10204508160438789 1484180612164671503 n
  • 10292452 10205212350724180 4114475717200765479 n
  • 10262108 10205254374814756 5443135461524799509 n
  • 10920901 10205254376534799 5476972113740283482 n
  • 10410312 10205254381334919 2096869922838297616 n

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband